|
Hvað kemur til baka? Vafalaust myndi einhver hluti ESB - skattsins koma aftur til Íslands í formi styrkja til landbúnaðar, sjávarútvegs og byggðamála. Íslensk stjórnvöld hafa þó barist gegn styrkjum til sjávarútvegs og vilja að þeir verði hvarvetna bannaðir en styrkir í landbúnað gera lítið annað en bæta að hluta til það tjón sem ESB-aðild veldur íslenskum bændum. Tap íslenskra skattgreiðenda við aðild breytist því lítið þótt einstaklingar og fyrirtæki næli sér í einhverja styrki frá ESB.
Hagnaður þjóðarbússins af lækkun vaxta? Ýmsir flíka mjög meintum hagnaði þjóðarinnar í kjölfar vaxtalækkunar við upptöku evrunnar sem gjaldmiðils á Íslandi. En þess ber að gæta að vaxtabreytingar breyta fyrst og fremst hagnaði eða tapi lánardrottna og skuldara innbyrðis hér innanlands en hafa lítil áhrif á afkomu þjóðarbúsins. Við þurfum ekki að fara í ESB til að fá hér lægri vexti. Ljóst er að vextir á húsnæðislánum hækka við aðild vegna þess að ríkisábyrgð á íbúðalánasjóði ríkisins fellur þá niður. Útlánavextir banka ráðast fyrst og fremst af innlendum aðstæðum: framboði og eftirspurn, fjárfestingu, atvinnustigi og verðbólgu, innlendum sparnaði og vaxtamun.
|
|