Ragnar Arnalds:
Póstkosningin og ánægjuandvarp Össurar

Þegar Samfylkingin var mynduð í aðdraganda kosninganna 1999 var um það samið að ESB-aðild yrði ekki stefnumál Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu 1999-2003. Alþýðuflokkurinn hafði gert ESB-aðild að kosningamáli 1995 með litlum árangri og tapað þá fylgi. Ljóst var að mikill ágreiningur yrði um þetta mál meðal þeirra sem stóðu að stofnun Samfylkingarinnar og því var það lagt til hliðar. Eins og kunnugt er var þetta fyrirheit svikið.
Löngu áður en póstkosningin í nóvember s.l. fór fram hóf forysta Samfylkingarinnar áróður fyrir ESB-aðild og notaði síðan hvert tækifæri sem bauðst í fjölmiðlum til að segja flokksmönnum hvaða afstöðu þeir ættu að taka eftir að atkvæðagreiðslan var ákveðin. Póstkosningin var ætluð til að fá flokksmenn til að blessa þá stefnu sem þegar hafði verið tekin af forystunni þvert á gefin fyrirheit. Í áramótagrein nú á gamlársdag lýsir Össur Skarphéðinsson ánægju sinni yfir því hve samstiga hann og flokkur hans séu í Evrópumálum og er þar að vísa í niðurstöðu póstkosningarinnar.
Ánægjuandvarp Össurar hlýtur að koma mörgum spankst fyrir sjónir því að niðurstaðan varð sú að aðeins 2127 flokksmenn svöruðu kallinu og gáfu forystunni grænt ljós. Fullyrt var eftir á að um 8000 kjósendur hefðu fengið senda atkvæðaseðla. Samkvæmt því voru jákvæðu svörin tæp 27%. Á vefsíðu ungra jafnaðarmanna rétt áður en atkvæði voru talin var þó fullyrt að um 10.000 atkvæðaseðlar hefðu verið sendir út og samkvæmt því voru jákvæðu svörin aðeins 21%. Í prófkjöri meðal flokksmanna nokkrum dögum síðar komu fram um 12.000 atkvæðaseðlar og var þó ekki prófkjör í einu af sex kjördæmum landsins. En reyndar skiptir ekki nokkru máli við hvaða tölu er miðað. Kjarni málsins er sá að um eða innan við fjórðungur flokksmanna reyndist samstiga flokksformanninum í ESB-málinu. Yfirgnæfandi meiri hluti lét linnulausan áróður formannsins sem vind um eyrun þjóta og tók ekki boði hans að þramma með honum til Brussel.
Sumir hafa sagt að þrátt fyrir afar dræma þátttöku hafi þó kosningin verið eins konar skoðanakönnun meðal flokksmanna. Því hafnaði Þórólfur Þórlindsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands eindregið í viðtali við Bylgjuna 27/10 s.l. Hann taldi niðurstöðuna alls ekki marktæka sem skoðanakönnun vegna dræmrar þátttöku og varði það álit sitt með þessum rökum: "við getum ekki gert ráð fyrir endilega að skoðanir þeirra sem svara og skoðanir þeirra sem ekki svara séu þær sömu."

Að mínum dómi var þó annað hálfu verra sem gerði þessa kosningu að algerri markleysu. Á kynningarfundum sem haldnir voru víða um land var einungis gerð grein fyrir annarri hlið málsins. Flokksmenn Samfylkingarinnar sem andvígir eru aðild voru hvergi auglýstir sem framsögumenn. Hins vegar var fólk úr öðrum flokkum fengið til framsögu á tveimur fundum og talaði ég á fundinum í Reykjavík. Enginn andstæðingur aðildar úr Samfylkingunni var boðinn í ræðustól á þeim fundi en hins vegar voru þrír framsögumenn úr já-liðinu látnir tala. Nokkrir fundarmenn gagnrýndu harðlega úr sæti sínu þá einhliða kynningu sem flokksforystan viðhafði en þeirri gagnrýni var ekki svarað.
Í öðru lagi var spurningin sem svara átti í atkvæðagreiðslunni með einu jái eða neii í raun þrjár spurningar í einni setningu. Margir kjósendur hefðu vafalaust viljað svara þeim misjafnlega, sumum jákvætt, öðrum neikvætt. Meginspurningunni, þ.e. um aðildarumsókn, var hrært saman við tvær aðrar sem minni ágreiningur var um og snerist önnur um það sjálfsagða mál sem allir eru sammála um, þ.e. að landsmenn fengju að eiga seinasta orðið um ESB-aðild í þjóðaratkvæði. Ég dreg það í efa að nokkru sinni hafi farið fram pólitísk atkvæðagreiðsla hér á landi þar sem spurningin var jafn leiðandi eins og reyndist í þessu tilviki.
Í þriðja lagi fóru umslögin með atkvæðaseðlunum ekki beint í póst þegar starfsmenn kjörstjórnar höfðu lokað þeim heldur var þingmönnum falið að sjá um dreifingu atkvæðaseðlanna. Hvernig sú dreifing fór fram var aldrei upplýst. Og til að kóróna þessa dæmalausu kosningu kom í ljós þegar kjósendur opnuðu umslagið að þeim var ekki aðeins sendur atkvæðaseðill heldur fylgdi með áróðurspési þar sem kostum aðildar var rækilega lýst en lítið gert úr rökum þeirra sem andvígir eru aðild. Atkvæðagreiðslur í einræðisríkjum hafa oft verið gagnrýndar harðlega. En hefur einhver heyrt getið um kosningu þar sem svo langt var gengið í ósvífninni að áróðurinn fylgdi með kjörseðlinum?
Sumir kunna að telja það einkamál Össurar Skarphéðinssonar hvernig hann skipuleggur kosningar innan Samfylkingarinnar. En ég er annarrar skoðunar. Stjórnarskrá lýðveldisins felur stjórnmálaflokkunum ábyrgðarmikið hlutverk. Þar er þeim falið að vera ein af burðarstoðum lýðræðisins í landinu og eitt mikilvægasta tæki fólksins til að koma vilja sínum og skoðunum á framfæri. Það snertir okkur öll hvar í flokki sem við stöndum þegar einn stærsti stjórnmálaflokkur landsins gengur í berhögg við þær meginkröfur sem gera verður til lýðræðislegra kosninga og stendur fyrir atkvæðagreiðslu þar sem troðið er á réttindum þeirra sem ekki eru sammála flokksforystunni: kjörskrá er óljós, dreifing kjörgagna gagnrýnisverð, spurningin afar leiðandi og stefna flokksforystunnar fylgir með kjörseðlinum.
                                  (Úr grein í Morgunblaðinu 15. janúar 2003)

Gengi krónunnar

Danir og
Norðmenn

Söguleg
veiðireynsla

Úr ýmsum áttum

Stjórnarskrá ESB

Marklaus kosning

Fjárkröfur ESB

Hví sögðu Svíar nei?

ESB og EES
The EU and EEA